Hér er áhugavert bréf sem birtist í Morgunblaðinu árið 1994 en þar er m.a. vitnað í orð Jóhannesar Jónssonar, kaupmanns frá árinu 1991 að það væri stórhættulegt fyrir verslun og neytendur í landinu ef einn aðili næði of stórum hluta markaðarins og vísaði hann m.a. í töluna 40% markaðshlutdeild sem væri alltof stór.

Baugur hefur í kringum 65-70% markaðshlutdeild á Íslandi og því fróðlegt að heyra hvaða álit hann hefur á því ?

Miðvikudaginn 14. september, 1994 - Aðsent efni
Opið bréf til Jóhannesar Jónssonar kaupmanns í Bónus og stjórnarformanns

Opið bréf til Jóhannesar Jónssonar kaupmanns í Bónus og stjórnarformanns Baugs, innkaupafyrirtækis Bónusar og Hagkaupa Mín spurning til Jóhannesar er: Hvað hefur breyst á rúmum þremur árum, segir Friðrik G. Friðriksson, og vitnar í ummæli í Tímanum.

Í DAGBLAÐINU "Tímanum" þann 26. mars 1991 var haft viðtal við þig og þú sagðir eftirfarandi:

"Það er afar óhollt í kapítalísku þjóðfélagi, að eitt fyrirtæki verði svo stórt að það nái kannski 30­40% markaðshlutdeild. Það á sér hvergi hliðstæðu í nágrannalöndum okkar að eitt fyrirtæki nái slíkum tökum. Það eru rosaleg völd fólgin í því að vera smásali. Náir þú góðum tökum á smásölumarkaði, þá nærð þú líka kerfisbundið tökum á ákveðnum iðnaði. Það er mjög hættulegt bæði framleiðendum og innflytjendum verði einn smásali mjög stór. Hann ræður þá ekki aðeins miklu um vöruval á markaðnum, heldur getur hann líka farið að framleiða verðbólgu í þjóðfélaginu.

Hvernig? Tökum dæmi: Segjum að þú hafir 40% markaðshlutdeild á ákveðnu sviði. Fyrir íslenskan framleiðanda skiptir þá miklu máli að þú seljir vörurnar hans. "Sjálfsagt," segir þú, "en ég vil þá fá 20% afslátt." Við svo mikinn afslátt ræður framleiðandinn ekki. Og hvaða ráð hefur hann þá til að komast inn í þetta stóra fyrirtæki? Jú, hann á eina leið: Hann getur hækkað verðið hjá sér um svona 7% yfir línuna til að kaupa sig inn í hillurnar hjá þér. En þar með hefur vöruverðið hækkað yfir allt landið - líka hjá þér, þó þú getir auðvitað selt hlutfallslega ódýrara en hinir, vegna 20% afsláttarins sem þú pressaðir í gegn.

Svona er unnið hér í þjóðfélaginu, þegar völdin komast á stórar hendur. Fyrir þessu verða menn í smáiðnaði. Það er bara snúið upp á hendurnar á þeim og þeir eiga ekki annarra kosta völ en að hækka vörurnar sínar, til þess að geta veitt þeim stóru sérkjör."

Sem fá svo kannski lof og prís fyrir að stuðla að lágu verðlagi?

"Einmitt, - þó hinn sami sé jafnvel valdur að því að hækka vöruverðið í landinu. Þetta á sér stað."

Svo mörg voru þau orð. Mín spurning til Jóhannesar er: Hvað hefur breyst á þessum rúmum þrem árum sem veldur því að þú afneitar þú þessum sannindum?

Höfundur er kaupmaður í F&A og formaður verðlagsnefndar Félags dagvörukaupmanna.

Friðrik G. Friðriksson





Miðvikudaginn 22. febrúar, 1995 - Aðsent efni
Bónus-Hagkaups-hringurinn bregst skyldum sínum

Bónus-Hagkaups-hringurinn bregst skyldum sínum. Samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu, að mati Friðriks G. Friðrikssonar, að Bónus¬Hagkaups¬veldið væri markaðsráðandi.

HINN 3. febrúar sl. kvað Samkeppnisráð upp úrskurð í kæru gegn Bónus-Hagkaups-veldinu yfir því, að það væri markaðsráðandi og beitti undirverðlagningu.

Samkeppnisstofnun komst að því að 25 vörutegundir, sem hún rannsakaði hjá Bónus, væru undirverðlagðar þannig að fyrirtækið seldi þær með allt að 29% tapi.

Þrátt fyrir þessa undarlegu viðskiptahætti Bónus taldi Samkeppnisráð ekki ástæðu til að banna þessa undirverðlagningu.

Á sama tíma komst Samkeppnisráð eindregið að þeirri niðurstöðu að Bónus-Hagkaups-hringurinn væri orðinn markaðsráðandi og þyrfti því að taka sérstakan vara við viðskiptaháttum hans með þessum orðum:

"Undirverðlagning sem ekki er í samhengi við þá verðlagningu, sem er á markaðnum, getur verið varasöm. Hún hlýtur að leiða til þess að birgjar viðkomandi vöru eða keppinautar á smásölustigi kaupa vöruna þar sem hún er undirverðlögð, enda brýtur það ekki í bága við samkeppnislög."

Skilaboð Samkeppnisráðs til annarra verslana voru því einföld: Þið skuluð fara og kaupa vöruna sem er undirverðlögð, þar sem hún er til sölu. Þar sem Bónus selur sumar vörur sannanlega langt undir heildsöluverði á markaðnum, þá getur hið markaðsráðandi fyrirtæki Bónus nú ekki lengur neitað að selja vöruna sem þeir bjóða.

Fyrirtæki mitt, Birgðaverslunin F&A, hefur skuldbundið sig til að útvega kaupmönnum (og þar með viðskiptavinum þeirra) vörur á lægsta mögulega verði.

Með hliðsjón af úrskurði Samkeppnisráðs ákvað ég að láta á það reyna hvort Bónus-Hagkaups-hringurinn, sem yfirlýst markaðsráðandi afl, hlítti þessari niðurstöðu Samkeppnisráðs.

Fór ég þá í tvær búðir Bónus og hugðist kaupa fjórar vörutegundir, sem voru þar á miklu lægra verði en venjulegu heildsöluverði. En það kom brátt í ljós, að Bónus ætlaði sér ekki að hlíta úrskurði Samkeppnisráðs né standa við skyldur sínar sem markaðsráðandi afl. Viðskipti mín voru stöðvuð, sjálfur forstjórinn tók innkaupakörfuna af mér með offorsi og fúkyrðum.

Daginn eftir virtist forstjórinn gera sér grein fyrir því að aðstaða hans sem markaðsráðandi afls væri þannig, að hann gæti ekki neitað mér um viðskiptin. Hann lýsti því opinberlega yfir að hann skyldi afgreiða vörur í magni, það þyrfti aðeins að leggja inn pöntun. Þessa yfirlýsingu gaf hann jafnframt í sjónvarpi á Stöð 2.

Ég lagði þá samkvæmt loforði hans inn pöntun á nokkru magni af fjórum vörutegundum: 1) Matarkex frá Frón, 2) Mjólkurkex frá Frón, 3) Niðursoðnar baunir frá Ora (hálfdósir) og 4) Pylsusinnep frá SS.

Bónus hefur nú eftir á lýst því yfir, að pöntunin verði ekki afgreidd!! Forstjórinn ber fyrir sig að vörur þessar hafi aðeins verið á vikulegu tilboðsverði og að hann sé ekki skyldur að afgreiða vörur á svo sérstöku verði.

Við teljum að samkvæmt úrskurði Samkeppnisráðs sé hann sem markaðsráðandi afl alveg eins skyldugur að afhenda hverjum sem er vörur á vikulegu tilboðsverði. Það sem verra er, að það eru ósannindi hjá honum að vörur þessar hafi verið á nokkru "vikulegu tilboðsverði". Þvert á móti hef ég sannanir fyrir því að þessi undirverðlagning á tilgreindum vörum hefur staðið yfir svo mánuðum skiptir.

Vegna þessara ósæmilegu verslunarhátta, þar sem Bónus brýtur strax reglur þær sem Samkeppnisráð setti viku áður, hef ég nú leitað álits Samkeppnisstofnunar um það, hvort Bónus hafi sem markaðsráðandi afli verið heimilt að neita mér um afgreiðslu á vörum og sömuleiðis hvort Bónus sé heimilt að skammta undirverðlagða vöru í búðum sínum. Hér er um að ræða viðskiptalegar hindranir sem eru brot á almennum samkeppnisreglum.

Nú bíð ég með eftirvæntingu eftir úrskurði Samkeppnisráðs. Það væru miklar hagsbætur fyrir þá mörgu neytendur, sem hafa ekki aðstöðu til að versla í stórmörkuðum, ef hinir almennu kaupmenn fengju tækifæri til í samræmi við samkeppnisreglur, að kaupa vörurnar þar sem þær eru ódýrastar. Það er markmið Samkeppnisstofnunar og samkeppnislaga og ætti líka að vera Bónus í hag. Bónus ætti heldur ekki að hafna þessum ágætu viðskiptum, sem gætu orðið mjög umsvifamikil með tímanum og stórkostlega hagstæð fyrir heimilin í landinu.

Höfundur er forstjóri Birgðaverslunarinnar F&A, sem hefur tekið að sér útvegun á vörum á lægsta hugsanlegu verði fyrir Félag dagvörukaupmanna.

Friðrik G. Friðriksson

Hvað er undirverðlagning?

Hvað kemur hún hinum almenna neytanda við?

Hvers vegna er hún framkvæmd?

Til að skýra þetta má setja upp eftirfarandi dæmi:

Verslun kaupir mjólkurkex hjá framleiðanda á kr. 100 (að öllum afslætti frádregnum). Kaupmaðurinn þarf að greiða virðisaukaskatt (vsk.) sem er í þessu tilfelli 24,5%. Hann greiðir því alls kr. 124,50. Venjulegir viðskiptahættir eru þeir að hann leggur á vöruna til að standa undir eigin rekstri, segjum 20% álagningu. Varan kostar þá neytanda kr. 120 plús vsk. af þeirri upphæð kr. 29,40. Samtals kr. 149,40. Kaupmaðurinn þarf síðan að skila í ríkissjóð mismuninum á þeim vsk. sem hann greiddi og þeim sem neytandinn greiddi sem gera kr.. 4,90.

Ef stórmarkaðurinn selur kexið undir kostnaðarverði (undirverðlagning), þá lítur dæmið öðru vísi út. Segjum að hann kaupi vöruna á sama verði (100 plús 24,50=124,50) en selur t.d. á 20% undir kostnaðarverði þ.e. kr. 80.00 plús vsk. af þeirri upphæð, sem er 19.60, samtals 99,60. Nú halda margir að hann tapi kr. 20,00 á hverjum pakka, en svo er ekki, því hann fær mismuninn á þeim vsk. sem hann greiddi og þeim sem neytandinn greiddi = kr. 4,90 endurgreiddan úr ríkissjóði. Tap kaupmannsins við undirverðlagninguna er því ekki kr. 20,00 á pakkann heldur kr. 15,10.

Hvað þýðir þetta fyrir neytendur almennt?

Staðreyndin er sú, að allir landsmenn, hvar sem þeir búa og hvar sem þeir kaupa inn eru með sköttum sínum að greiða niður fjórðung af tapi stórverslana sem stunda undirverðlagningu í gegnum ríkissjóð.

Hvers vegna er undirverðlagning?

Þær verslanir, sem stunda markvissa undirverðlagningu til lengri tíma, en það geta einungis þeir allra stærstu, eru að lokka neytendur til sín. Þessar vörur eru oft á neytendasíðum dagblaðanna í formi verðkannana og geta þeir litið á tapið af undirverðlagningunni sem auglýsingakostnað. Þeir ná síðan upp tapinu með sölu á öðrum vörum sem bera góða álagningu.

Neytendur alls landsins greiða fjórðung af stríðsrekstri markaðsráðandi afla, sem m.a. hafa þau áhrif að smærri kaupmenn leggjast smámsaman af og stór fjöldi neytenda er að greiða niður vörur fyrir aðra neytendur.



Laugardaginn 27. maí, 1995 - Aðsent efni
Bónus vinnur áfangasigur!

Það á ekki að vera hlutverk Samkeppnisstofnunar, segir Friðrik G. Friðriksson, að vernda hagsmuni einnar verslunar fram yfir aðrar

BÓNUSVERSLANIR vinna áfangasigur í baráttunni við að útrýma smærri verslunum landsins. Félag dagvörukaupmanna, Félag íslenskra stórkaupmanna og Samtök iðnaðarins lögðu fram erindi til Samkeppnisstofnunar um mitt síðasta ár til að fá leiðréttingu og skýringu á samkeppnisstöðu félaga innan sinna vébanda.

Svar Samkeppnisstofnunar:

1. Samkeppnisstofnun komst að þeirri niðurstöðu að samsteypan Hagkaup-Bónus-Baugur væri markaðsráðandi afl á íslenska matvælamarkaðinum. Fljótt á litið virtist hér vera um að ræða mikinn áfangasigur fyrir réttmæta viðskiptahætti og eðlilega samkeppni. En hitt var ekki útskýrt hvaða skyldum slíku markaðsráðandi afli bæri að hlíta og það er að okkar mati enn óljóst.

2. Spurningunni hvort markaðsráðandi afl mætti selja vörur undir kostnaðarverði var í fyrstu svarað á eftirfarandi hátt: - Samkeppnisstofnun komst að því eftir eigin rannsókn að Bónusverslanirnar seldu fjölda vörutegunda undir kosnaðarverði, en sá þá ekkert athugavert við að markaðsráðandi afl selji vörur þannig, þó hluti af slíkri undirverðlagningu sé fjármögnuð af ríkissjóði í formi endurgreidds virðisaukaskatts. Stofnunin taldi hins vegar eðlilegt að kaupmenn og birgjar keyptu vörur sínar þar sem verðið er lægst og ráðlagði okkur þannig að kaupa þessar niðurgreiddu vörur í Bónusverslununum.

Látið reyna á úrskurðinn

Kaupmaður í Félagi dagvörukaupmanna, sem er undirritaður, vildi láta á þetta reyna og hóf kaup á vörum í Bónus. Ástæða slíkra kaupa var augljós. Vörurnar sem um ræðir voru á lægra verði en kaupmenn gátu fengið hjá sjálfum innflytjendum og framleiðendum. Með því að kaupa vörurnar þar sem þær voru ódýrastar gátu kaupmenn endurselt þær til viðskiptavina sinna um land allt á lægra verði en ella.

Fyrstu viðbrögð voru að forráðamenn Bónus sögðu mér að leggja inn pöntun sem ég og gerði, en þrátt fyrir loforð þeirra, sem m.a. kom fram í fjölmiðlum, sviku þeir það, neituðu að afgreiða pöntunina og tóku þess í stað þess upp á því að að skammta þessar vörutegundir. Síðar var mér alfarið meinað að kaupa í verslunum Bónus.

Þessi viðbrögð kærði ég fyrir Samkeppnisstofnun, þar sem virtist ljóst, að þau væru augljós brot á úrskurði hennar og vildi þannig ganga úr skugga um það, hvort nokkuð væri að marka fyrri úrskurð hennar.

Tveggja mánaða meðferð!

Þessi ofur einfalda kæra mín var síðan í meðferð Samkeppnisstofnunar í hvorki meira né minna en tvo mánuði, frá 13. mars, þar til ég fékk loks úrskurð þann 15.maí!

Kæran var afgreidd á eftirfarandi hátt: Kröfu minni um að fá að versla óáreittur í verslunum Bónus var hafnað!!! Einnig fékk hið markaðsráðandi afl heimild til að skammta vörur í verslun sinni að vild "svo fremi að slík takmörkun sé byggð á réttmætum sjónarmiðum og að takmörkun sé beitt með hlutlægum og almennum hætti", hvað svo sem það nú þýðir.

Það á ekki að vera hlutverk Samkeppnisstofnunar að vernda hagsmuni einnar verslunar fram yfir aðrar og allra síst verslun sem stofnunin sjálf hefur skilgreint sem markaðsráðandi á matvælamarkaðinum.

Samkeppnisstofnun ekki starfi sínu vaxin?

Það er nú augljóst að Samkeppnisstofnun hefur með þessari ákvörðun á engan hátt bætt samkeppnisstöðu minni verslana á landinu nema síður sé og er slík niðurstaða með öllu óviðunandi. Niðurstöður beggja úrskurða gera áætlanir smærri verslana um sameiginleg hagstæð innkaup miklu erfiðari þegar Samkeppnisstofnun og Samkeppnisráð slá skjaldborg um stórveldið á markaðinum eins og gert er með þessum úrskurðum.

Við teljum að Samkeppnisstofnun sýni, að hún sé ekki starfi sínu vaxin í þessu máli, því augljósa mótsögn er að finna í fyrri úrskurði þar sem okkur er bent á að kaupa vörurnar þar sem þær eru ódýrastar, og hinsvegar í þessum úrskurði þar sem Bónusverslunum er leyft að hafna viðskiptum! Minni kaupmenn eru með þessu skikkaðir til að kaupa vörur oft á mun hærra verði hjá heildsölum og framleiðendum en þær eru boðnar í smásölu hjá "stóra bróður". Þessi staðreynd bitnar endanlega á þeim neytendum, sem versla við kaupmanninn á horninu, að ég tali nú ekki um þá neytendur sem búa úti á landsbyggðinni.

Við lítum svo á að markaðsráðandi fyrirtæki, sem notar stærð sína ekki aðeins til að ná óeðlilega lágum kjörum frá framleiðendum og innflytjendum heldur einnig til að selja fjölda vörutegunda undir kostnaðarverði, sé að grafa undan rekstrargrundvelli smærri verslana um land allt, verslana sem hafa óumdeildu hlutverki að gegna gagnvart þeim neytendum sem af ýmsum ástæðum geta eða vilja ekki versla í stórmörkuðunum. Auk þess er það óréttlátt að þorri landsmanna greiði niður verð hjá þeim sem selja undir kostnaðarverði í formi endurgreidds virðisaukaskatts.

Ráðherra beiti sér fyrir réttlæti

Tilraunir okkar til að ná rétti okkar í gegnum Samkeppnisstofnun hafa þannig alls ekki borið þann árangur sem við væntum og teljum eðlilegan samkvæmt samkeppnislögum. Jafnvel þótt Samkeppnisstofnun og Samkeppnisráð hefðu komist að þeirri niðurstöðu að kaupmenn mættu kaupa óhindrað í verslunum Bónus, þá teljum við það heldur ekki eðlilega viðskiptahætti, en nánast niðurlægjandi að þurfa að kaupa vörur í smásöluverslun fremur en beint frá framleiðendum og innflytjendum. Þessi réttlætisbarátta hefur kostað okkur mikinn tíma og mikla fjármuni m.a. í lögfræðikostnað og það er okkur um megn að halda þessari baráttu áfram á þessum vettvangi. Við sjáum nú ekki aðra leið en að leita beint til viðskiptaráðuneytis og ráðherra og biðja um endurskoðun á málinu öllu.

Ég vil nota tækifærið og skora á nýjan viðskiptaráðherra að hann beiti sér fyrir réttlæti í þessu máli, því ef það verður ekki gert fyrr en síðar, þá stefnir í það að aðeins ein matvöruverslun verði eftir í landinu.

Höfundur er fyrrv. varaformaður Dagvörukaupmanna.

Friðrik G. Friðriksson





Sunnudaginn 13. febrúar, 2000 - Aðsent efni
Hvers vegna hefur verð á innfluttum matvælum hækkað?

Friðrik G. Friðriksson

Það er sem sagt arðsemiskrafa hluthafa og sjálfumgleði stjórnenda sem ræður ferðinni, segir Friðrik G. Friðriksson, og hún skeytir engu um það hvaða afleiðingar slíkar hækkanir hafa fyrir fjölskyldurnar í landinu.


UNDANFARNA daga hafa ýmsir aðilar verið að fárast yfir því að verð á matvörum hafi hækkað úr hófi fram.

Starfsmaður Hagstofu tjáði sig í útvarpi 26. janúar um þetta mál og sagði að verð á innfluttum matvörum hafi hækkað um 7,8 % á milli ára án sýnilegrar ástæðu þegar tekið er mið af verðþróun erlendis og gengisþróun íslensku krónunnar.

Það þarf engan sérfræðing til að skilja hvað hefur gerst: Seljendur hafa hækkað álagninguna á milli 12 og 18% á þessu tímabili. En er nokkuð við þessu að segja þar sem álagning á matvöru er frjáls? Ástæða fyrir því að hin aukna álagning er hærri en raunverðhækkunin er sú að gjaldeyrir evruþjóða kostaði um 10% meira í ársbyrjun 1999 heldur en í janúar 2000 og að meðaltali 20% meira en í ársbyrjun 1996. Um helmingur alls innflutnings á matvælum er frá löndum sem notast við evruna. Samkvæmt skýrslum hagstofu hefur ekki verið meira en 1% meðalhækkun á matvörum í þessum löndum síðustu tvö árin. Álagning fer á innkaupsverð vöru. Birgjar, þ.e. heildsalar, hafa ekki hirt nema hluta af þessum gengishagnaði eða aðeins á þeim vörum sem þeir selja kaupmanninum á horninu en ekki stórmörkuðunum. Það eru því stórmarkaðirnir sem bera ábyrgð á þessari nýju stöðu, sem menn þekktu áður fyrr aðallega í tengslum við gengisfellingar.

Hvers vegna eru stórmarkaðirnir að hækka verð á matvælum við aðstæður sem í raun og veru gefa tilefni til umtalsverðrar verðlækkunar?
Matvælaverslun á Íslandi hefur ekki verið ofalin síðustu árin, jafnvel þó að álagning hafi verið frjáls um árabil. Starfsfólk í þessari grein verslunar hefur verið láglaunafólk og er enn. Til skamms tíma mátti rekja þetta til aukinnar og óvæginnar samkeppni hins frjálsa markaðar. Í dag er þessi óvæga samkeppni hins vegar ekki lengur fyrir hendi. Er þá ekki sjálfsagt og eðlilegt að matvælaverslunin bæti hag sinn?

Rekstrarumhverfi matvælaverslunar í dag er lýsandi dæmi um það sem hagfræðin kallar ófullkomna samkeppni og á erlendu fagmáli kallast "oligopol". Nánar tiltekið er hér á ferðinni oligopol í þröngri merkingu þess orðs, þar sem örfá stór fyrirtæki eru á markaði ásamt mörgum litlum. Munurinn á þessu ástandi og þeirri fákeppni þar sem aðeins fá stór fyrirtæki stjórna ferðinni, líkt og tíðkast hér á landi í olíuverslun og flutningum, er sá, að bæði olíuverslun og flutningar eru miklu gegnsærri starfsemi og því auðveldara fyrir stjórnvöld að kippa í spottana ef verðmyndun fer fram með óeðlilegum hætti. Hins vegar geta þessir stóru risar í matvælaverslun skammtað sér arð og eru einungis í samkeppni við örsmá fyrirtæki, sem m.a.. vegna óhagkvæms rekstrarforms neyðast til að vera með miklu hærra verð til að skrimta. Stóru fyrirtækin geta skýlt sínu háa verði á bak við litlu fyrirtækin. Stóru fyrirtækin geta haft samráð sín á milli, þótt ugglaust sé oftast um að ræða oftast þegjandi samkomulag, þar sem undir liggur ótti við verðstríð sem myndi koma sér illa við öll stórfyrirtækin sem hlut eiga að máli.

Vissulega væri hækkun verðs að einhverju leyti réttlætanlegt ef stórmarkaðarnir myndu nota hinn aukna hagnað sinn til að leiðrétta laun starfsmanna sinna, en það er því miður ekki raunin hér fremur en annars staðar í heiminum, þar sem samskonar einokunarstaða kemur upp og eigendur fyrirtækjanna eru aðrir en starfsmennirnir sjálfir. Aukinn hagnaður er notaður af eigendum hlutabréfa til að leika sér í stóra alheimsmatadorinu. Það er sem sagt arðsemiskrafa hluthafa og sjálfumgleði stjórnenda sem ræður ferðinni og hún skeytir engu um það hvaða afleiðingar slíkar hækkanir hafa fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Þáttur Bónusar og stjórnvalda
Nú er rétt að líta á hvernig þetta byrjaði allt saman og hvernig við komumst í þá stöðu sem við erum í þessa dagana. Það urðu meiri háttar þáttaskil í íslenskri verslun fyrir rúmum áratug þegar heildsalar voru orðnir hvekktir á stærð og hörku Hagkaups. Óánægjan með markaðsráðandi stöðu þessa eina fyrirtækis leiddi loks til þess að heildsalar lýstu sig reiðubúna að lána vörur í nýja verslun sem bar nafnið Bónus. Hér var á ferðinni nokkurs konar umboðsverslun án mikils tilkostnaðar. Hún notaðist við leiguhúsnæði, takmarkað vöruval og engar auglýsingar. Þessi verslun gat unnið með miklu lægri álagningu en aðrir. Í þá daga þótti mönnum Hagkaup allt of stórt fyrirtæki og heildsalar óttuðust þá einokunaraðstöðu sem síðar átti eftir að verða daglegt brauð í íslenskri matvöruverslun. Verslun Bónus gekk betur en nokkurn hafði grunað. En ekki leið á löngu áður en óskabarnið fór að pína velgerðarmenn sína, birgjana, með öllum hugsanlegum ráðum, s.s. með eigin innflutningi, hótunum um að henda út vörum þeirra o.s.frv. Hið nýja fyrirtæki hafði m.ö.o. tekið upp sömu viðskiptahætti og "óvinurinn" Hagkaup hafði áður gert og viðhafðir eru af öllum stórmörkuðunum í dag. Þetta er jafnframt ástæðan fyrir því að enginn birgir verður feitur á viðskiptum sínum við stórmarkaðina, en bætir sér það upp með því að selja smærri kaupmönnum á hærra verði. Því fer fjarri að þetta hafi einungis valdið gremju, því stjórnvöld og fleiri aðilar sáu sér hag í hinni nýju einokunarverslun, sem raunar er engu betri en sú illræmda einokunarverslun sem Danir viðhöfðu hér á landi og oft hefur verið talin ein helsta réttlæting fyrir því að Íslendingar sögðu skilið við konungsveldið og gerðust sjálfstæð þjóð..

Smærri kaupmenn fóru í auknum mæli að gera innkaup sín í Bónus því þar fékkst lægra verð en hjá birgjunum sjálfum, sama hvort vörurnar voru frá innlendum framleiðendum eða innflutningsfyrirtækjum.

Ástæðan fyrir ánægju stjórnvalda hefur ekki verið öllum ljós, en skýringin er eftirfarandi. Þessi nýja verslun lækkaði "opinbert" verð í landinu. Þegar framfærsluvísitalan, sem nú heitir vísitala neysluverðs, var reiknuð, söfnuðu embættismenn lægsta verði matvara á hverjum tíma, án þess að gefa skýringu á því hvernig það verð varð til, hvort það var undir kostnaðarverði eða eitthvað annað. Þessi staðreynd sýnir að forsendur vísitölunnar eru meingallaðar og í raun háðar duttlungum eins verslunarfyrirtækis. Hækkun neysluvísitölunnar kom harðast niður á þeim sem minnst máttu sín, hvort sem það var vegna innkaupa á matvælum, skulda fólksins eða kaupkrafna. Það er ekki furða að af þessu vilji sumir draga þá ályktun að pólitík markaðsbúskapar gangi að miklu leyti út á að halda þessum láglaunastéttum í skefjum. Allt þetta var og er gert í anda hinnar göfugu frelsisdýrkunar ráðamanna í skugga misviturra skólabókaspekinga. Þetta frelsi þýði í raun ófrelsi stórs hóps manna, sem hefur ekki efni á því að kaupa hollan mat og neyðist til að lifa á ruslfæði og verður smám saman að akfeitum sjúkrahúsmat líkt og lágstéttir háborgar markaðbúskaparins í Bandaríkjunum.

Stjórnvöld höfðu svo mikilla hagsmuna að gæta með því að notfæra sér hina ódýru verslun til þess að halda vísitölu neysluverðs niðri að þau vörðu hana í gegnum þykkt og þunnt, litu fram hjá "virðisaukaskattsmistökum" þar sem Bónus seldi sannanlega mánuðum saman m.a. Coca Cola með 14% virðisauka í stað 24,5% og hirti þar með milljónir úr ríkiskassanum. Þetta var afgreitt sem tölvumistök. En hér var ekki á ferðinni yfirsjón, heldur má líta á þetta sem niðurgreiðslu ríkisins á matvælum. Spurningin er bara sú, hvort réttlætanlegt sé að niðurgreiða aðeins eina verslun, og það Coca Cola! Þegar Bónus flutti inn og seldi vörur með ólöglegum litarefnum, þögðu bæði tollyfirvöld sem og Hollustuvernd þunnu hljóði. Þegar Bónus seldi vörur undir kostnaðarverði brást Samkeppnisstofnun svo hrapallega að nú er svo komið að sú stofnun er varla tekin alvarlega. Ráðamenn og Samkeppnisstofnun sváfu yfir sig þegar Hagkaup, sem þá þegar var orðið yfirlýst af Samkeppnisstofnun sem markaðsráðandi fyrirtæki, innlimaði Bónus og síðar 10-11 verslanirnar. Í kjölfarið bættust svo við tvær aðrar blokkir matvöruverslana. Ráðamenn vildu samt ekki gefast upp og héldu áfram niðurgreiðluhugsjón sinni með hávaxtastefnu til að halda gengi krónunnar allt of háu, sem átti að leiða til lægra vöruverðs, sem alls ekki hefur orðið raunin, heldur aðeins aukið innflutning svo um munar og þar með aukið á viðskiptahallann.

Þáttur fjölmiðla
Aðkoma fjölmiðla að þessari sögu var með ólíkindum. Til að byrja með hrifust menn skiljanlega af lægra vöruverði í Bónus. Fjölmiðlar veittu versluninni alla þá auglýsingu sem með þurfti. En þeir halda enn áfram þrátt fyrir breyttar aðstæður. Þessi framkoma er dapurlegur vitnisburður um hve lítið fjölmiðlar skeyta um þau mál sem þeir fjalla um. Nýjasta dæmið í þessum dúr er þegar talsmaður stórmarkaðanna kvartaði nýverið mikinn yfir 4% verðhækkun á mjólkurvörum. Þessi uppákoma er auðvitað til þess fallin að slá ryki í augu fólks og um leið að draga athyglina frá og réttlæta allar hinar verðhækkanirnar. Þarna hitti ein einokunin aðra. Munurinn er samt mikill. Annars vegar Mjólkursamsalan, sem með hærra verði stuðlar að áframhaldandi ræktun landsins og búskap. Þetta má flokkast undir hugsjón, sem réttlæta má á ýmsa vegu. Hins vegar er um að ræða stórmarkaðina, sem böðlast áfram með það eitt að leiðarljósi að maka krókinn og sjá hlutabréfin hækka. Hugsjón án réttlætiskenndar er lítils virði.

Nýir viðskiptahættir; Pappír í stað alvörupeninga
Annar atburður í íslenskri verslunarsögu á þessum tíma átti líka eftir að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar og tengist m.a.. þessum verðhækkunum, en það var þegar heildsali og ofurhugi keypti heilt olíufélag með því að láta fyrirtækið sjálft borga brúsann. Virðulegir bankamenn litu á þetta sem "skandal" aldarinnar. Þessi atburður varð síðan fyrirmynd fyrir gamla sem unga athafnarmenn á Íslandi, ekki síst bankana. Menn hafa þróað þessa aðferð enn frekar, því nú er ekki greitt með venjulegum peningum heldur eru prentaðir miðar sem heita hlutabréf og heill skari vatnsgreiddra unglinga í þar til gerðum stofnunum auglýsa og bjóða til sölu. Fjölmiðlar taka hugsunarlaust þátt í leiknum og æsa venjulegt fólk til að taka þátt í nýja matadorinu. Allar hugsjónir og réttlætiskennd eru víðs fjarri. Rétt eins og sögurnar gamalkunnu um mikla gróðann af keðjubréfunum, fáum við okkar daglega skammt af hlutabréfafárinu í aðalfréttatímum fjölmiðlanna. Græðgi, samanburður og öfund eru í hásæti.

Hvað er til ráða?
Þetta sjálfskaparvíti ríkisstjórnarinnar sýnir ekki fagleg vinnubrögð. Samkeppnisstofnun hefur málið til athugunar, en þeir hafa að óbreyttu lítið vald til að skerast í leikinn. Einn forystumaður Neytendasamtakanna benti á gr. 17 í samkeppnislögum, en þeir sem hafa lesið hana sjá að hún er handónýt í þessu máli. Ef við byggðum við jafnstrangar reglur og Bandaríkin í sambandi við frelsi markaðarins mundi ekki vera komið svona illa fyrir okkur.

Frelsispostularnir ættu þó ekki eftir að taka upp gamla verðlagseftirlitið? Þá gætu starfsmenn Samkeppnisstofnunarinnar loksins farið að vinna að einhverju sem þeir eru færir um að sinna og kunna frá fornu fari.

Það eru margir þættir þessa pistils sem þyrftu miklu ítarlegri umfjöllun, en fjölmiðlar vilja ekki slíkt, plássið er takmarkað eins og hjá CNN, plássið er takmarkað og tíminn of naumt skammtaður til þess að gefa fólki tækifæri til að hugsa.

Höfundur er fyrrv. varaformaður Félags matvörukaupmanna og fyrrv. formaður verðlagsnefndar sama félags.



Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.