Ekki stóð á viðbrögðum við áskorun minni til lesenda síðunnar í kaflanum um "Baugur og skytturnar 3" þar sem ég hvatti lesendur að senda mér upplýsingar um FL Group. Hátt á annan tug pósta hafa borist og er því tími kominn að taka saman helstu atriðin:

Líkt og flestir Íslendingar hef ég fylgst með hinu gríðarlega falli FL Group undanfarna mánuði.

Þetta helsta stolt íslensku kauphallarinnar og íslensks fjármálamarkaðar er í dag rústir einar og verður afskráð úr kauphöllinni á næstunni skv. fréttum.

Stjórnendur félagsins voru hafnir upp til skýjanna í fjölmiðlum og viðskiptalífinu og aldrei örlaði á efnislegri gagnrýni á neitt sem þessir viðskiptatöframenn, sem áttu og stjórnuðu FL Group, gerðu með fjármuni almennings og lífeyrissjóða.

Sumir hluthafar ganga svo langt í dag að kalla afkomutölur FL Group "efnahagslegt vandamál og óráðsíu".

Í viðtali á Stöð 2, 18. febrúar 2008, kom m.a. fram hjá stjórnarformanni almenningshlutafélagsins FL Group:

"Segir Jón Ásgeir að engum sé greiði gerður með því að fegra bækur og að hjá Baugi hafi alltaf verið beitt Bónus-aðferðafræðinni, að hver króna skipti máli."


Þegar kemur að rekstri almenningshlutafélaga undir stjórn Baugsmanna virðist þessi "Bónus-aðferðafræði" hinsvegar eitthvað hafa misfarist.

Og Hæstiréttur Íslands komst nú að þeirri niðurstöðu að Jón Ásgeir hafi fegrað bækurnar með tilhæfulausum reikningum fyrir tugi milljóna króna !

Áríð 2006 skilaði almenningshlutafélagið 365 (áður Dagsbrún), þar sem Baugur er stærsti hluthafinn, rekstrartapi uppá rúmlega 7.000 milljónir og var það mesta tap íslenskrar viðskiptasögu á þeim tíma.

Árið eftir setur almenningshlutafélagið FL Group svo nýtt Íslandsmet þegar það skilaði um 67.000 milljóna tapi og fyrstu 4 mánuðina 2008 nam tapið rúmlega 40.000 milljónum.

Líkt og í 365 var Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður félagsins og Baugur meðal stærstu hluthafa.

Það er ýmislegt varðandi FL Group sem hljómar mjög kunnuglega í mínum eyrum. Ber þar hæst hið gríðarlega og stjórnlausa flæði fjármuna hluthafa FL Group útúr félaginu, en ekki síður fréttir danska vefritsins www.travelpeople.dk um uppsagnir og ásakanir fyrrverandi stjórnarmanna og forstjóra félagsins.

Það er athyglisvert að rifja upp þegar þáverandi stjórn FL Group og forstjóri félagsins, Ragnhildur Geirsdóttir, sögðu af sér vegna óeðlilegra viðskiptahátta æðstu stjórnenda félagsins skv.skýringum sem þá voru gefnar.

Á aðalfundi 10. mars 2005 var ákveðið að breyta nafni Flugleiða í FL Group og voru eftirtaldir kjörnir í stjórn félagsins: Árni Oddur Þórðarson, Gylfi Ómar Héðinsson, Hannes Smárason, Hreggviður Jónsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Jón Þorsteinn Jónsson og Pálmi Kristinsson. Hannes Smárason var kjörinn formaður stjórnar og Hreggviður Jónsson varaformaður.

Fyrsta dag júlí mánaðar 2005 barst félaginu hins vegar tilkynning þar sem þrír stjórnarmenn, Árni Oddur Þórðarson, Hreggviður Jónsson og Inga Jóna Þórðardóttir, sögðu sig úr stjórn vegna ágreinings um vinnubrögð stjórnarformanns. Í kjölfarið var boðað til hluthafafundar 9. júlí 2005, en áður en að honum kom höfðu allir stjórnarmenn, fyrir utan Hannes Smárason, sagt sig úr stjórninni.

Morgunblaðið greindi meðal annars svo frá þeim fundi:

"Inga Jóna Þórðardóttir bað um orðið eftir að Hannes hafði lokið ræðu sinni og gerði grein fyrir brotthvarfi sínu, sem tilkynnt var á stjórnarfundi 30. júní síðastliðinn. Hún sagði að á síðustu vikum hefði henni orðið það ljóst að starfshættir innan stjórnar félagsins hefðu ekki verið með þeim hætti sem hún teldi að samþykktir félagsins og starfsreglur segðu til um. Hún benti á að í ársskýrslu Flugleiða fyrir árið 2004 kæmi fram að stjórnin legði sérstaka áherslu á að viðhalda góðum stjórnunarháttum og tilgreindar væru sérstaklega leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja sem Verslunarráð Íslands, Kauphöll Íslands og Samtök atvinnulífsins komu að.

"Í veigamiklum atriðum er verulegur misbrestur á að farið sé eftir þeim reglum, sem í gildi eru," sagði Inga Jóna sem telur nauðsynlegt að gerðar verði ákveðnar ráðstafanir til að tryggja að stjórnunarhættir verði í fullu samræmi við þann ramma sem samþykktir félagsins og starfsreglur kveða á um.

"Þegar stjórnarformaður er jafnframt í fullu starfi sem slíkur, eins og er í FL Group, er enn brýnna að þessir hlutir séu í lagi og enginn velkist í vafa um verkaskiptingu forstjóra og starfandi stjórnarformanns. Að mínu viti verður það ekki gert nema með sérstakri samþykkt stjórnar sem hluta af starfsreglum," sagði Inga Jóna.

Hún benti á að í samþykktum félagsins og í starfsreglum stjórnar væri kveðið skýrt á um hlutverk og ábyrgð stjórnar gagnvart eftirliti með reikningshaldi og meðferð fjármuna félagsins. Samkvæmt þeim skyldi félagsstjórn taka ákvarðanir í öllum málum, sem telja verði óvenjuleg eða mikilsháttar. Þá sagði hún jafnframt að það væri alveg ljóst í hennar huga að allar stærri fjárfestingar og skuldbindingar gagnvart félaginu skyldu ræddar og undirbúnar og samþykktar í stjórn félagsins."


En hvað gerðist ?

Af hverju hættir forstjóri félagsins fyrirvaralaust?

Af hverju hættir öll stjórn FL Group ?

Lesandi síðunnar hefur sent mér mjög svo áhugaverða frétt sem birtist á danska vefsvæðinu www.travelpeople.dk sem fjallar um fréttir úr ferða- og flugheiminum.

Greinin á vefsvæðinu www.travelpeople.dk fjallaði um um ásakanir á hendur Hannesi Smárasyni varðandi millifærslu á þúsundum milljónum króna úr sjóðum FL group í Lúxemborg án heimildar og vitundar stjórnar FL group yfir á annan reikning í Lúxemborgar þar sem Pálmi Haraldsson beið eftir fjármununum sem átti að nota til kaupa á Sterling flugfélaginu.

Orðrétt sagði svo í grein Travelpeople (í minni þýðingu):

"Íslenskt stormveður í kringum eiganda Sterling

Stjórnarformaður FL Group og einn aðaleigandinn, Hannes Smárason, er sakaður um að hafa tekið 3.000 milljónir ISK af bankareikningi fyrirtækisins í Lúxemborg án heimildar/vitneskju stjórnar félagsins eða forstjóra.

Hannes Smárason, stjórnarformaður og stærsti hluthafinn í hinu islenska almenningshlutafélagi FL Group, sem mun yfirtaka Sterling flugfélagið 1.janúar 2006, var harðlega gagnrýndur af öðrum hluthöfum FL Group á aðalfundi félagsins í Reykjavík í dag.

Er hann m.a. sakaður um, sem stjórnarformaður FL Group, að hafa millifært 3.000 milljónir ISK af bankareikningi félagsins í Lúxemborg á annan reikning í Lúxemborg, sem tilheyrir fjárfestingarfélaginu Fons (innskot mitt: sem er í eigu helsta viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs, Pálma Haraldssonar, sem jafnframt er núverandi varaformaður stjórnar FL Group).

Peningarnir eru seinna millifærðir aftur inná reikning FL Group, en gagnrýnin beinist fyrst og fremst að því að Hannes hafi ekki haft neitt samráð við stjórnendur félagsins, þ.e. stjórnina/forstjórann.

Fyrir aðeins örfáum vikum síðan gekk forstjóri FL Group, Ragnhildur Geirsdóttir, á dyr með aðeins dags fyrirvara, þar sem hún vildi ekki taka þátt í þessum fjármunahreyfingum Hannesar án heimildar stjórnar félagsins.

Hún vildi einnig ekki taka þátt í kaupunum á Sterling þar sem hún taldi kaupverðið uppá 1.5 milljarð DKK algerlega óraunhæft.

Einn af hluthöfum FL Group, Vilhjálmur Bjarnason, sem er lektor í viðskiptafræðum í Háskólanum í Reykjavik, upplýsti á aðalfundinum, að sterkur orðrómur væri í viðskiptalífinu í Reykjavík, þess efnis að FL Group hafi í raun og veru keypt flugfélagið Sterling af hinum norska eiganda þess, Fred Olsen.

Vilhjálmur krafðist svara um millifærsluna í Lúxemborg uppá 3 milljarða inná reikning Fons og hvort það hafi verið liður í fjármögnun vegna kaupa Fons á Sterling (Fred.Olsen seldi Sterling til fjárfestingarfélagsins Fons fyrir 375 Million DKK).

Vilhjálmur gaf sterklega í skyn að hann teldi að í þessum viðskiptum hafi Hannes Smárason í raun verið að versla við sjálfan sig.

Eftir að hafa eignast Sterling flugfélagið fyrir 375 million DKK hafi Hannes svo selt flugfélagið Sterling til almenningshlutafélagsins FL Group þar sem hann situr sem stjórnarformaður, fyrir 1.500 milljónir DKK.

Hannes svaraði á þá leið að hann var ekki tilbúinn að upplýsa frekar um þessi viðskipti að svo komnu máli en hann myndi útbúa greinargerð sem myndi síðan verða lögð fyrir aðalfund félagsins."

TRAVEL PEOPLE NEWSLETTER - 01NOV2005


Travel People skrifaði einnig um uppsögn forstjórans, Ragnhildar Geirsdóttur og vitnaði í orð hennar að stjórnarformaður FL Group hefði tekið einhliða ákvörðun um kaup á Sterling flugfélaginu án samráðs við sig sem forstjóra og án samráðs við stjórnarmenn félagsins sem eru fulltrúar hluthafa og æðsta vald félagsins og hefði samið um algerlega óásættanlegt verð fyrir félagið, þ.e. margfalt hærra verð en eðlilegt getur talist, og hún ekki viljað taka ábyrgð á þessum kaupum og því ákveðið að hætta störfum.

Orðrétt sagði svo á vef travelpeople.dk:

"Forstjóri FL Group segir upp störfum í mótmælaskyni vegna kaupanna á Sterling flugfélaginu.

Forstjóri almenningshlutafélagsins FL Group, Ragnhildur Geirsdóttir (34), hættir störfum og tekur uppsögnin þegar gildi.

Ragnhildur gaf út tilkynningu þess efnis sl. þriðjudag og segir þar m.a. að hún geti ekki samþykkt þau vinnubrögð sem voru viðhöfð vegna kaupa FL Group á flugfélaginu Sterling.

Ragnhildur upplýsir að stjórnarformaðurinn í FL Group, Hannes Smárason (37), hafi tekið einhliða ákvörðun án samráðs við stjórnendur félagsins og að hún vilji ekki taka ábyrgð á kaupunum á hinu danska flugfélagi.

Traustar heimildir innan FL Group fullyrða að FL Group muni greiða ekki undir 1.500 milljón DKK fyrir Sterling flugfélagið og sú upphæð er að mati Ragnhildar langt yfir raunverðmæti hins danska flugfélags.

Ekki er upplýst um hvort FL Group skuli greiða fyrir Sterling með reiðufé eða hlutabréfum í FL Group sem á einnig hið íslenska flugfélag, Icelandair.

Óháð greiðslufyrirkomulaginu, fullyrðir Ragnhildur að það verði mjög erfitt að fá jafnvægi í rekstur Sterling Airlines og útilokað að ná þessari fjárfestingu uppá 1.500 milljón DDK tilbaka."

TRAVEL PEOPLE NEWSLETTER - 19OKT2005


Þetta hljómar allt mjög kunnuglega í mínum eyrum sem og allra sem þekkja til Baugsmálsins, sbr. framburð stjórnarmanna og stjórnarformanns í almenningshlutafélaginu Baug sem lesa má hér.

Líkt og við þáverandi stjórn FL Group var ekkert samráð haft við stjórn eða stjórnarformann Baugs hf. um gríðarlega fjármuni sem voru teknir úr almenningshlutafélaginu Baug (án trygginga, vaxta eða lánspappíra) og settir í allskyns viðskipti og hlutabréfakaup sem forstjóri félagsins, Jón Ásgeir, taldi heppileg og oft á tíðum hagnaðist verulega sjálfur í leiðinni eins og lesa má hér.

Rúv.is birti nýlega frétt þess efnis að FL group og Pálmi Haraldsson í Fons, hafi keypt og selt flugfélagið Sterling á milli sín í nokkrum viðskiptum fyrir um 40.000 milljónir.

Pálmi Haraldsson keypti flugfélagið Sterling sem danskir miðlar sögðu á þeim tíma algerlega verðlaust vegna tapreksturs á 4.000 milljónir krónur en hann seldi það svo nokkrum mánuðum seinna til FL Group á 15.000 milljónir.

Ég spyr: Af hverju hafa Íslenskir fjölmiðlar ekki fjallað um þessar ásakanir sem travelpeople.dk birti á vefsvæði sínu ?

Í febrúar 2008 skrifar danska viðskiptablaðið Börsen svo grein um Sterling flugfélagið og fullyrðir að ekki sé hægt að selja Sterling á 1 krónu í dag.

Það er alveg jafn verðlaust í dag eins og það hefur verið undanfarin ár.

"Heimildir í flugvélabransanum fullyrða að Sterling flugfélagið sé alveg verðlaust í dag.

Ef selja ætti félagið í dag, geta eigendur í besta falli fengið 0 krónur fyrir félagið og jafnframt afhenda kaupandanum alla peningana vegna fyrirfram greiddra farmiða".


FL group metur 35% eignarhluta sinn ásamt láni til félagsins Northern Travel Holding á rúmlega 15.000 milljónir skv. aðalfundi félagsins nýlega en helstu eignir félagsins eru félög sem voru öll áður í eigu Pálma Haraldssonar í Fons: Hekla Travel, Ticket, Sterling, Aestrus og Iceland Express.

Sterling þarf hins vegar sífellt meira fé frá hluthöfum almenningshlutafélagsins FL Group.

Kaupverð Northern Travel Holding á Iceland Express af Pálma Haraldssyni fæst ekki gefið upp skv.aðalfundi félagsins nýlega.

Og svo er spurning hvort Danir hafa ekki hitt naglann á höfuðið varðandi hina íslensku "töfraformúlu" í viðskiptum.

Danskir fjölmiðlar hafa nefnilega ákveðnar skoðanir varðandi þessar íslensku söluaðferðir milli sömu aðila en danska dagblaðið Berlingske Tidende skrifaði þetta á sínum tíma og birti Morgunblaðið eftirfarandi þýðingu á greininni á mbl.is 2.janúar 2007:

Viðskipti | Morgunblaðið | 2.1.2007 | 05:30
Viðskipti sem auka eigið fé

„Íslensku viðskiptatöframennirnir hafa ekki fundið upp peningaprentunina en þeir eru nálægt því," segir í frétt á viðskiptavef Berlingske Tidende.

„Samkvæmt mörgum heimildarmönnum í danska bankakerfinu opnar íslenska viðskiptalíkanið, þar sem menn kaupa og selja fyrirtæki hver af öðrum, áður óþekkta möguleika á að auka eigið fé. Þetta getur til að mynda gerst með þessum hætti: Íslenskt fjárfestingarfélag kaupir fyrirtæki fyrir 400 milljónir [danskra] króna.

Ári síður selur það fyrirtækið fyrir 1,5 milljarða [danskra] króna. Kaupandinn greiðir fyrir með eigin hlutabréfum. Kaupandinn eykur sem sé hlutafé um 1,5 milljarða en eykur um leið eigið verðmæti um 1,1 milljarð í formi viðskiptavildar [1,5 milljarðar að frádregnum 400 milljónum].

Bæði kaupandinn og seljandi hafa þannig aukið eigið fé um 1,1 milljarð [danskra] króna," segir Berlingske Tidende.

Eigið fé FL Group hefur sexfaldast

Í greininni er um leið minnt á að aukið eigið fé veiti félögum aðgang að auknu lánsfé en tekur fram að ekki séu allir bankar tilbúnir til þess að veita aukin lán á þessum grundvelli.

„Sú aðferð að kaupa og selja hver af öðrum og greiða með eigin bréfum eykur eigið fé íslensku fyrirtækjanna mjög hratt og þetta hefur vakið athygli utan Íslands. Þannig hefur eigið fé FL Group meira en sexfaldast frá því á fyrsta ársfjórðungi árið 2005."


Fleiri dæmi má nefna:

Pálmi Haraldsson keypti Skeljung hf. á sínum tima og seldi til Haga sem er í eigu Baugs.

Hagar seldi svo Skeljung aftur til Pálma Haraldssonar.

Pálmi Haraldsson seldi síðan Skeljung aftur en núna með sölutryggingu frá Glitni.

FL Group er kjölfestufjárfestir Glitni banka og Jón Ásgeir er stjórnarformaður FL Group og Baugur einn stærsti hluthafinn.

Pálmi Haraldsson keypti einnig Öryggisfyrirtækið Securitas af Baug á tæplega 4.000 milljónir í gegnum óstofnað eignarhaldsfélag sem hann hugðist setja á stofn.

Vefsvæðið www.heimur.is sem m.a. gefur út tímaritið Frjálsa Verslun komst þá svo að orði varðandi söluna á Securitas:

"26. febrúar: Fons kaupir Securitas
Það er gaman að fylgjast með því að þegar félög, sem vinna náið saman í fjárfestingum eins og Baugur, Fons, FL Group, 365, Dagsbrún og áfram mætti telja, eiga viðskipti innbyrðis.

Innan viðskiptalífsins eru svona fréttir yfirleitt kallaðar: Baugur selur Baugi. Frétt af þessum toga var þegar Fréttablaðið sagði frá því að óstofnað félag í eigu Fons hefði keypt öryggisfyrirtækið Securitas af Teymi á 3,8 milljarða króna.

Jafnframt var sagt að áætlaður söluhagnaður Teymis væri 500 milljónir króna. Allaf fróðlegt þegar „óstofnuð félög“ snara út 3,8 milljörðum."


Lesandi sendi mér eftirfarandi pælingar sem eru býsna áhugaverðar:

"Ef hlutabréf er skráð eign í fyrirtæki á t.d. 100 milljónir og selt fyrir 150 milljónir þá myndast 50 milljóna hagnaður sem kemur fram í rekstrinum.

Ef það er síðan keypt aftur á 300 milljónir er það eignfært fyrir 300 milljónir og hvort það sé hagnaður eða tap kemur þá næst fram við sölu þess (sem væntanlega skýrir af hverju FL Group kaupir Sterling á 15.000 milljónir og selur svo aftur til félags í stórum hluta í eigu þeirra, á 20.000 milljónir)

Miðað við 70% veðsetningu væri hægt fyrir þá að fá fyrirgreiðslu úr 70 milljónum í 210 milljónir og á móti er fyrirtækið sem þeir mynda með hagnað uppá 50 milljónir.

Svo eru þeir að versla við fyrirtæki hinum megin þar sem þeir eru líka með tögl og haldir og þannig myndast bæði hagnaðar og eignaaukning báðum megin."

Ég spyr: Er þetta "uppskriftin" að velgengni FL Group/Baugsmanna?

Eru bankastofnanir virkilega svona "einfaldar"?

Er þetta ein ástæða hins gífurlega fjárhagsvanda á íslenskum fjármálamarkaði í dag ?

Hafa þessir herramenn verið að leika sér með sífelldum kaupum/sölum innan sömu "group"-fyrirtækja til að hækka eigið fé og sækja meiri veðsetningarmöguleika til að "græða" enn meira?

Hversu mikil "viðskiptavild" sem er ósýnileg og óáþreifanleg eign er að finna í bókum FL Group undanfarin ár ?

Hversu mikla "viðskiptavild" er að finna í bókum Northern Travel Holding sem keypti hið verðlausa flugfélag Sterling á 20.000 milljónir af FL Group?

Eins og margoft hefur komið fram er FL Group ásamt Pálma Haraldssyni sem upphaflega keypti Sterling á 4.000 milljónir - eigendur rúmlega 80% hluta í Northern Travel Holding og því spurning hvort hér sé kominn skýringin á því af hverju þeir "kaupa" Sterling fram og tilbaka á sífellt hærra verði á milli sín.

Einu raunverulegu peningarnir sem skipta um hendur eru peningar hluthafa almenningshlutafélagsins FL Group !

Síðan er athyglisvert að fylgjast með flóttanum úr FL Group því það virðist ekki bara hafa verið stjórnin og forstjórinn sem flúðu í ofboði vegna stjórnarhátta og viðskiptasiðferðis þessara herramanna.

Morgunblaðið birti eftirfarandi frétt um uppsögn upplýsingafulltrúa FL Group:

Morgunblaðið Þriðjudaginn 23. október, 2007 - Viðskiptafréttir
"Kristján Kristjánsson hættir hjá FL Group

Kristján Kristjánsson er hættur störfum hjá FL Group sem upplýsingafulltrúi. Hann staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið og sagðist ekki lengur hafa talið sig eiga samleið með félaginu."


Morgunblaðið birtir svo eftirfarandi í Staksteinum 24. október en Staksteinar eru á ábyrgð ritstjórnar Morgunblaðsins og verður að teljast furðulegt að þessi skrif hafi ekki vakið meiri athygli:

Miðvikudagur, 24. október 2007
"Að eiga samleið eða ekki

Það vakti athygli, þegar Kristján Kristjánsson sjónvarpsmaður fór til starfa hjá FL-Group en hann hafði vakið eftirtekt fyrir að vera einarður í spurningum við viðmælendur sína.

Það vekur líka athygli þegar Kristján Kristjánsson lætur af störfum hjá sama félagi eftir tiltölulega stuttan starfstíma og gefur upp þá ástæðu að hann hafi ekki lengur talið sig eiga samleið með félaginu.

Þetta er forvitnileg skýring, sem bendir til að brottför Kristjáns Kristjánssonar hafi ekki verið hávaðalaus.

Af hverju átti hann ekki lengur samleið með þessu öfluga fjárfestingarfélagi?

Var hann beðinn um að gera eitthvað, sem braut í bága við grundvallarafstöðu hans til þess hvernig umgangast eigi upplýsingar?

Áttu menn ekki skap saman?

Það hefur færzt í vöxt, að blaðamenn og fréttamenn ráði sig til starfa við upplýsingamiðlun til stórfyrirtækja. Það er svona upp og ofan hvernig þeim líður í slíkum störfum og sumir hverfa frá þeim kalnir á hjarta.

En Kristján Kristjánsson hefur gefið upp boltann. Með örfáum orðum gefur hann til kynna, að sagan sé ósögð.

Hvað kemur í veg fyrir, að hún verði sögð?

Samningur um þögn?"


Þessi skrif Morgunblaðsins eru sérlega áhugaverð þegar hafður er í huga pistill Agnesar Bragadóttir um "Hræðsluþjóðfélagið" sem ég birti hér á síðunni.

Hvað veit Morgunblaðið ? Af hverju segir Morgunblaðið ekki alla söguna ?

Nýr upplýsingafulltrúi FL Group, Halldór Kristmannsson, sagði einnig upp störfum eftir u.þ.b. 3 mánuði í starfi.

Ekki hefur fengist skýring á þeirri uppsögn.

Einnig sagði fjármálastjóri FL Group upp störfum á sama tíma.

Hvað veldur ?

Er mögulegt, líkt og Morgunblaðið gefur sterklega í skyn í Staksteinum, sbr.skrifin hér að ofan, að menn hafi einfaldlega ekki getað unnið hjá FL Group samvisku sinnar vegna ?

Skv. veftímaritinu www.eyjan.is kallar seðlabankastjóri FL Group FL-Enron.

Er þar vísað í eitt stærsta fjársvikahneyksli Bandaríkjanna þar sem stjórnendur stórfyrirtækisins Enron fölsuðu bókhald og bjuggu til sýndarviðskipti, földu töp og lán í undirfélögum, eins og frægt er, og mjólkuðu félagið að fjármunum með mjög vafasömum bókhaldsfærslum.

Ég spyr:
Af hverju er ekki fjallað um þessi mál í íslenskum fjölmiðlum og ásakanirnar sem birtast í danska vefritinu www.travelpeople.dk kannaðar til hlítar ?

Sömu menn og voru dæmdir í Hæstarétti nýlega í Baugsmálinu, fyrir bókhaldsbrot og fegrun á afkomutölum stærsta almenningshlutafélags Íslands á sínum tíma, hafa verið meðal stærstu hluthafa FL Group og eftir að þáverandi stjórn sagði af sér settust þeirra helstu viðskiptafélagar í stjórn félagsins, þ.e. þeir sem ég kalla "Skytturnar 3", sbr. samnefndan kafla hér á síðunni: Þorsteinn Jónsson, Magnús Ármann og Pálmi Haraldsson.

Ég hvet alla lesendur til að lesa kaflann um Fjárfar ehf. hér á síðunni. Þar var sett á svið geysilega yfirgripsmikið blekkingarferli til að fela raunverulegt eignarhald á félaginu Fjárfar ehf. sem m.a. fékk hundruði milljóna króna frá Baugi hf. án vitundar og heimildar stjórnarmanna Baugs hf.

Fjölmargir einstaklingar voru blekktir til að "fronta" félagið svo hægt væri að kaupa m.a. verslunarkeðjuna 10-11 sem síðan var svo seld tilbaka til almenningshlutafélagsins Baugs hf. með hundruða milljóna króna álagningu sem rann í vasa eigenda og stjórnenda Fjárfars ehf. Framburði þessara einstaklinga má finna í kaflanum um "Leynifélagið Fjárfar ehf."

Ég spyr:
Er það mögulegt að einn helsti viðskiptafélagi Baugsmanna, Pálmi Haraldsson, hafi fengið peningana til að kaupa Sterling Flugfélagið frá sjóðum FL Group eins og travelpeople.dk ritar hér að ofan?

Er það mögulegt að þetta sé "Fjárfars brella nr. 2", þ.e. fyrst er leppur fenginn til að kaupa Sterling fyrir 4.000 milljónir og svo nokkrum mánuðum seinna selur hann sama flugfélagið Sterling til almenningshlutafélagsins FL Group fyrir 15.000 milljónir ISK og hagnast því um 11.000 milljónir á kostnað hluthafa FL Group sem sitja nú uppi með algerlega verðlaust flugfélag eins og það hefur alltaf verið?

Fjárhagsstaða Sterling virðist til að mynda vera svo slæm að eigendurnir þurftu að leggja til þúsundir milljóna til félagsins nýlega og það eru enn og aftur hluthafar almenningshlutafélagsins FL Group sem blæða því þeir eru meðal stærstu eiganda Sterling vegna eignaraðildar FL Group í félaginu NTH.

Ég hvet alla til að lesa kaflann um "Leynifélagið Fjárfar ehf." hér á síðunni sem og kaflann Baugur og "skytturnar 3".

Hringja engar viðvörunarbjöllur hjá hluthöfum FL Group og eftirlitsstofnunum á Íslandi þegar fortíðin er rifjuð upp ?

Af hverju sögðu forsvarsmenn FL Group ósatt um eignarhluta Sund ehf. í Northern Travel Holding, sbr. kaflinn um "Baugur og skytturnar 3", þegar þeir fullyrtu að Sund ehf. væri enn meðal hluthafa félagsins þegar raunin er sú að Sund ehf. fór úr félaginu fyrir sl.áramót ?

Af hverju er það ekki upplýst hversu mikið Sund ehf. á að hafa greitt fyrir 22% hlut í Northern Travel Holding ?

Af hverju er það ekki upplýst, miðað við vonlausa fjárhagsstöðu Northern Travel Holding, hversu mikið það greiddi til Sunds ehf. þegar það keypti hlut þess tilbaka, sbr. fréttir þess efnis nýlega og hver er ástæða þess að Pálmi Haraldsson og FL Group, sem eiga Northern Travel Holding, kaupa Sund ehf. úr félaginu ?

Af hverju er "kaupsamningur" Sunds ehf. á hlut í Northern Travel Holding ekki aðgengilegur fyrir hluthafa FL Group ?

Var ákvæði í samningnum þess efnis að Sund ehf. gæti endurselt hlut sinn hvenær sem er aftur til Northern Travel Holding ?

Greiddi Sund ehf. fyrir hlut sinn í Northern Travel Holding eða er þetta framvirkur samningur sem Sund hf. getur bakkað útúr hvenær sem er?

Af hverju er ekki gefið upp hversu mikið Sund ehf. fékk "greitt" fyrir hlut sinn í NTH ?

Er það tilviljun að öll félögin sem tilheyra Northern Travel Holding, þ.e. Sterling, Aestrus, Hekla Travel, Ticket og Iceland Express, voru áður í eigu Pálma Haraldssonar?

Hversu mikið af þessum 14.000 milljónum, sem FL Group lánaði Northern Travel Holding til að kaupa Sterling flugfélagið af – jú, mikið rétt, FL Group, hefur verið greitt tilbaka?

Af hverju er allt sem snýr að þessu stanslausa peningaaustri útúr almenningshlutafélaginu FL Group sveipað þögn og leynd?

Sé miðað við forsöguna og ekki síst þann fréttaflutning sem travelpeople.dk segir frá hér að ofan - af hverju er ekki hafinn rannsókn á þessum málum hjá FL Group?

Hvar er Fjármálaeftirlitið?

Hvar eru hluthafar FL Group?

Hvar eru viðskiptablöð landsins?

Af hverju heyrist ekki stuna frá einum né neinum þótt allar þær upplýsingar sem mér hafa borist megi finna með aðstoð google.com?!

Eftir Hæstaréttardóminn yfir Jóni Ásgeiri um bókhaldsbrot er ljóst að tveir æðstu stjórnendur og stærstu hluthafar FL Group eru með Hæstaréttardóm á bakinu þar sem Pálmi Haraldsson var einn af höfuðpaurunum í stóra "Grænmetis-samráðs" málinu fyrir nokkrum árum. Sjá nánar þann Hæstaréttardóm hér.

Félag Pálma Haraldssonar flutti m.a. grænmeti til útlanda í þeim eina tilgangi að minnka framboð á Íslandi og þar með hækka verð til neytenda á Íslandi.

Helstu ákæruliðirnir lutu m.a. að:

– Verðsamráði SFG og Ágætis hf. varðandi kartöflur og grænmeti.

– Verðsamráði og markaðsskiptingu SFG og Ágætis hf. varðandi kartöflur og innflutt grænmeti og ávexti.

– Verðsamráði og markaðsskiptingu SFG og Ágætis hf. í viðskiptum með banana.

– Verðsamráði og markaðsskiptingu SFG og Mata ehf. varðandi innlent grænmeti, vínber, appelsínur og kiwi.

– Verðsamráði og markaðsskiptingu SFG og Mata ehf. varðandi banana.

– Verðsamráði og markaðsskiptingu Mata ehf. og Ágætis hf. varðandi kartöflur, grænmeti og ávexti.

– Aðgerðum Mata ehf., Ágætis hf. og SFG í því skyni að koma tilteknum grænmetisframleiðanda út af markaðinum.

– Sameiginlegum útflutningi SFG og Ágætis hf. í því skyni að draga úr framboði innanlands og hækka þar með verð.

Ég spyr:
Er mögulegt að þessir tveir æðstu stjórnendur FL Group (Jón Ásgeir stjórnarformaður og Pálmi Haraldsson varaformaður stjórnar) sem báðir hafa Hæstaréttardóm á bakinu vegna lögbrota í viðskiptalífinu, hafi mjólkað almenningshlutafélagið FL Group um þúsundir milljóna króna með flugfélagið Sterling?

Hvernig er hægt að útskýra rekstrarkostnað FL Group, sem hafði um 50 stöðugildi árið 2007, uppá 6.100.00.000 milljónir króna ?

Í hvað fóru allir þessir peningar? Bréfaklemmur? Ljósritunarpappír? Ritföng?

Þetta jafngildir um 120 milljón krónum á hvern starfsmann í REKSTRARKOSTNAÐ!

Liðurinn "Annar kostnaður" í ársreikningi FL Group er uppá 1.995 milljón krónur. Ég hvet alla til að lesa hugleiðingar ritstjóra Frjálsrar Verslunar hvað þetta rugl varðar en hann segir m.a. um þennan fáranlega rekstrarkostnað uppá 6.100.000.000 krónur:

"Þegar ég gluggaði í ársreikning FL Group sem tilkynnti í vikunni mesta tap Íslandssögunnar, 67,3 milljarða, varð mér litið á rekstrarkostnað fyrirtækisins. Hann var 6,2 milljarðar króna. Og viti menn; þar er „eitt stykki flugturn“ innanborðs. Það er liðurinn „annar rekstrarkostnaður“.

Hann er 2 milljarðar! Sagt og staðið. Afgangstala – ekkert útskýrt frekar. Rétt sí svona eins og þetta séu blýantar, strokleður, tölvur, málverk og þið vitið...svona annar kostnaður. Eitthvað smælki. En hjá FL Group er hann 2 milljarðar.

Það er allt að því súrrealískt að hafa „annan rekstrarkostnað“ upp á 2 milljarða. Og takið eftir; við erum að tala um annan rekstrarkostnað fjárfestingarfélags í Síðumúlanum sem er með um 36 manns í vinnu og skrifstofan er opin frá 9 til 17.

Að vísu hlýtur að hafa verið unnnið eitthvað á kvöldin og nóttunni hjá félaginu. Það hefur stundum mátt sjá ljósin kveikt á skrifstofunum á kvöldin. En varla er þessi annar rekstrarkostnaður FL Group rafmagnskostnaður – þó reikningarnir séu að verða ansi háir hjá Orkuveitunni í seinni tíð."


Annar liður sem vekur athygli í rekstrarkostnaði almenningshlutafélagsins FL Group er liðurinn "lögfræðikostnaður og ráðgjöf" vegna fjárfestinga uppá 1.300 milljón krónur.

Ritstjóri Frjálsar verslunar kemst skemmtilega að orði hvað það varðar í grein sinni:

"Bíddu, það var þá? Þarf ekki aðeins að staldra hér við. Að greiða lögfræðingum og ráðgjöfum úti í bæ 1,3 milljarða króna fyrir að láta mann tapa 67,3 milljörðum. Það heitir að vera flottur á því. Ég er ekki viss um að þessir lögfræðingar og ráðgjafar vilji fá nöfn sín sundurliðuð.

Þegar ég sá þennan lögfræðikostnað hjá FL Group hélt ég fyrst að ég væri að lesa ársskýrsluna hjá Sir Paul McCartney sem er með stóð lögfræðinga í kringum sig þessa dagana vegna dýrasta skilnaðar sögunnar.

En hverjir eru það svo að lokum sem greiða þennan „annan rekstrarkostnað“ hjá FL Group upp á 2 milljarða. Þeir heita víst hluthafar."


Síðan er ótrúlegt að lesa fréttina á www.ruv.is sem birtist 27. maí 2008 og fjallar um 800 milljóna kostnað sem almenningshlutafélagið FL Group eyddi í að kanna mögulega yfirtöku á bresku spilakassa fyrirtæki sem heitir Inspired Gaming.

Þar segir m.a.

"Á aðalfundi FL í vetur var stjórnin krafin um upplýsingar um kostnað við að kanna yfirtökuna á Inspired. Í svörum FL kemur fram að stjórnendur félagsins hafa metið það svo að hin rúmu áttatíu prósentin í Inspired, sem félagið átti ekki og vildi eignast með yfirtökunni, væru fimmtíu milljarða króna virði.

Að viðbættum fimmtungshlutnum sem FL átti fyrir, virðast stjórnendur FL Group hafa metið Inspired á ríflega 62 milljarða króna virði.

Þá kemur fram í svari FL Group að félagið hafi orðið fyrir beinum útlögðum kostnaði við að kanna möguleikann á yfirtöku samtals rúmar 790 milljónir króna.

Þrátt fyrir þessa trú stjórnenda FL á spilakassafyrirtækinu Inspired hefur gengi bréfa félagsins lækkað mikið að undanförnu og á föstudag var hluturinn seldur á 67 pence.

Miðað við það er markaðsvirði fyrirtækisins aðeins sjö milljarðar króna eða einn níundi af því sem stjórnendur FL Group töldu fyrir 5 mánuðum."


Ég spyr:
Hvað hefur gerst í rekstri þessa spilafyrirtækis sem gerir það að verkum að verðmæti félagsins hefur lækkað um 300 milljón sterlingspund á 6 mánuðum?

Hvaða "sérfræðingar" almenningshlutafélagsins FL Group fengu 800 milljónir til að mæla fyrir kaupum á þessu félagi og mátu virði félagsins um 62.000 milljón króna?

Sé miðað við að þessir sérfræðingar hafi tekið 25.000 krónur á tímann þá jafngildir þetta um 32.000 vinnustundum sem hafa farið í að "skoða" þetta litla spilakassa fyrirtæki sem er í dag metið á um 7.000 milljón krónur sbr.frétt RÚV hér að ofan!

Ef við gefum okkur 10 stunda vinnudag, 5 daga vikunnar, þá jafngildir það 200 klst per mánuð eða um 2.400 vinnustundir per ár.

Þessi kostnaður sem hluthafar almenningshlutafélagsins FL Group greiddu til hinna óþekktu "sérfræðinga" jafngildir því að um 13 einstaklingar hafi verið í fullri vinnu í heilt ár - með 25.000 krónur á tímann - að skoða þetta litla spilakassafyrirtæki í Bretlandi!

13 einstaklingar - alla daga ársins - í fullri vinnu, að meta þetta litla spilakassafyrirtæki!

Eru menn alveg orðnir blindir á vitleysuna?

Til að átta sig betur á þessu rugli er rétt að upplýsa um heildarkostnað íslenska ríkisins varðandi einkavæðingu Símans.

Sá kostnaður nam um 790 milljón krónum, og þar af er "söluþóknun" vegna sölunnar á Símanum um 680 milljónir, en FL Group þurfti ekki að greiða neina slíka þóknun þar sem engin sala fór fram!

Í skýrslunni stendur m.a.:

Kostnaður

Greiddur og gjaldfallinn kostnaður vegna sölu Símans frá ársbyrjun 2004 til þess tíma er söluverð var greitt ríkinu, þann 6. september 2005, nam samanlagt 786 m.kr.

Þar af var söluþóknun Morgan Stanley 682 m.kr. að meðtöldum útlögðum kostnaði. Kostnaður vegna lögfræðiráðgjafar og greinargerða nam samtals 61,2 m.kr. Kostnaður vegna verðmats og fjármálagreiningar nam 22,7 m.kr. og ýmis önnur ráðgjöf nam samtals 6,7 m.kr.

Nefndarlaun og ferðakostnaður námu samanlagt um 10 m.kr. á umræddu tímabili. Annar kostnaður nam samtals 3,1 m.kr.


FL group getur varla hafa greitt söluþóknun þar sem ekkert tilboð var gert í félagið skv. upplýsingum fl group.

Kostnaður símans fyrir utan söluþóknun:

Lögmenn: 61.2 milljon
Verðmat og fjármálagreining: 22.7 milljon
Önnur ráðgjöf: 6.7 milljon
Nefndarlaun og ferðakostnaður: 10 milljon
Annar kostnaður: 3.1 milljon


Cirka 100 milljónir í kostnað !

FL Group greiðir hinsvegar 800 milljonir vegna skoðuna á mun minna fyrirtæki sem veltir 165 milljonum punda, sem eru á þáverandi gengi rúmir 20 milljarðar, og þar sem engin sala átti sér stað var engin söluþóknun greidd.

800 millur fljúga samt út úr félaginu í "kostnað".

Þessar 800 milljónir fást ekki sundurliðaðar né heldur hver fékk greitt.

Ekkert frekar en þessar 1.995 milljónir sem tilgreindar eru sem "annar kostnaður" í rekstrarkostnaði félagsins.

Og ekki er talin þörf á neinum útskýringum á þessum 15.000 milljónum sem almenningshlutafélagið FL Group greiddi fyrir Sterling flugfélagið.

Ég spyr:
Hvað þarf til að hluthafar og eftirlitsstofnanir, að ekki sé talað um íslenska fjölmiðla, vakni og spyrji sig hvort þetta séu allt tilviljanir eða hvort það geti verið að þessir herramenn sem hafa Hæstaréttardóma á bakinu fyrir blekkingar, verðsamráð og bókhaldsbrot, sbr.hér að ofan, hafi tekið eitt stykki "Fjárfars snúning" á almenningshlutafélagið FL Group ?

Enn og aftur:
LESIÐ kaflann um Fjárfar ehf. og spyrjið ykkur eftirfarandi:

Er þetta allt tilviljanir sem rakið er hér að ofan? Eða voru Baugsmenn og helstu viðskiptafélagar þeirra að taka "Fjárfars" snúning á almenningshlutafélagið FL Group?

Endilega sendið mér svar ykkar á jon@nordicaexport.com.

Ég bý sem betur fer í Bandaríkjunum og þarf ekki að hafa áhyggjur af þessum blekkingum lengur.

Hæstiréttur hefur nefnilega kveðið upp dóm sinn og minn framburður varðandi þennan fræga reikning frá Nordica var talinn réttur og Jón Ásgeir og Tryggvi Jónsson fengu dóma fyrir brot sitt.

Baugspennarnir Hallgrímur Helgason, Jóhann Hauksson, Reynir Traustason og Sigurjón M. Egilsson sem fara mikinn í skrifum sínum um rannsókn á Baugsmálinu, ættu að lesa skjölin á www.baugsmalid.is og spyrja sig eftirfarandi:

Fæ ég nógu mikið greitt fyrir að verja þetta viðskiptasiðferði sem þessir herramenn stunda?

Óli Björn Kárason, fyrrum ritstjóri viðskiptablaðsins, fullyrðir á vefsvæði sínu, www.t24.is, að frá því þessir herramenn tóku yfir FL Group nemi tapið rúmlega 50.000 milljón krónum og er þá allur hagnaðurinn undanfarin ár tekin með í reikninginn.

Hannes fékk hinsvegar um 95 milljónir í starfslokasamning þegar hann hætti á sl. ári eftir 67.000 milljón króna tap !

Hannes átti einnig einkaþotu sem hann leigði til almenningshlutafélagsins FL Group fyrir flugferðir sínar og fékk greiddar rúmar 90 milljónir.

Hluthafar FL Group sitja hins vegar uppi með:
a. Mesta tap Íslenskrar viðskiptasögu á einu ári
b. Mesta tap íslenskrar viðskiptasögu á einum ársfjórðungi (Q1,2008)
c. Mesta rekstrarkostnað íslenskrar viðskiptasögu
d. Mesta "könnunarkostnað" íslenskrar viðskiptasögu vegna Inspired Gaming

Lokaorðin verða pælingar hins skelegga blaðamanns, Péturs Gunnarssonar, sem hann ritar á vefsvæði sitt, eyjan.is, 17.febrúar sl.:

"Í júlí 2005 var haldinn hluthafafundur í FL Group. Það voru aðeins fjórir mánuðir frá aðalfundi en það var órói í stjórninni og stjórnarmenn og Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri höfðu sagt upp störfum.

Á hluthafafundinum gerði Inga Jóna Þórðardóttir grein fyrir ástæðum afsagnar sinnar og sagði starfshættir félagsins væru ekki í samræmi við samþykktir þess.

Verkaskipting milli stjórnarformanns og forstjóra félagsins væri óskýr og að hana þyrfti að skýra. Setja þyrfti skýrari starfsreglur og tryggja að eftir þeim yrði farið svo ástandið yrði bætt.

Á þessum hluthafafundi tók við ný stjórn. Hannes Smárason var áfram stjórnarformaður og sá eini sem sat áfram. Nýir stjórnarmenn voru, auk Hannesar: Einar Ólafsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Magnús Ármann, Sigurður Bollason og Þorsteinn M. Jónsson. Varamenn: Kevin Stanford og Smári S. Sigurðsson.

Þetta var - að ég held - stjórnin sem gerði samninginn við Hannes Smárason, sem færði honum 90 milljóna starfslokasamning fyrir að reka félagið með 63 milljarða tapi á síðasta ári. 6,2 milljarða rekstrarkostnaður í félagi með 40 starfsmenn, þar af 2 milljarðar í annan, óskilgreindan kostnað. Sjálfsagt er einkaþotan inni í því.

En það var sem sagt Jón Ásgeir sjálfur sem gerði starfslokasamninginn við Hannes Smárason.

----

Man einhver til þess Fjármálaeftirlitið hafi gripið til aðgerða í framhaldi af þessari uppákomu í FL Group sumarið 2005? Þessi uppreisn var einsdæmi í sögu hlutabréfamarkaðarins á Íslandi. Í ljósi þess sem nú hefur verið að gerast er eðlilegt að spyrja: Hvað var gert í framhaldi af athugasemdum Ingu Jónu og mótmælum hennar og annarra þeirra stjórnarmanna, sem gerðu skyldu sína, stóðu upp og sögðu: “Við viljum ekki koma nálægt þessu?” Er ekki ástæða til þess að fá það á hreint? Eða sýndi FME fyllstu “tillitssemi”?

Og hvað með þá lífeyrissjóði sem settu fé í félagið í framhaldi af þessu? Hvað segja stjórnendur þeirra í dag?"


Svo mörg voru þau orð.

Þögn hluthafa almenningshlutafélagsins FL Group er dapurleg.

Þögn íslenskra fjölmiðla er óskiljanleg, þ.e. fyrir utan Baugsmiðlana sem allir eru keyptir til þöggunar.

Þögn íslenskra eftirlitsstofnana er sorgleg.

Og svona í lokin má geta þess að Hannes Smárason, var einn af arkitektunum á bak við deCODE ævintýrið á sínum tíma. Þá var "leikflétta" sett í gang til að selja íslenskum almenningi bréf í deCODE og fór gengið hæst í rúmlega 60 USD á hlut á gráa markaðnum og þessir herramenn högnuðust vel og lengi á þeirri sölu.

Í dag eru bréf deCode kominn undir 1 USD og því ljóst að þeir sem fjárfest hafa í deCode hafa tapað gríðarlegum fjármunum.

Alveg eins og hluthafar FL Group sem sumir hverjir hafa tapað öllu sínu.

Íslenski fjármálamarkaðurinn er einfaldlega ekki að virka.

Eftirlitið er í molum. Fjársvelta og mannekla háir öllum eftirlitsstofnunum og Fjármálaeftirlitið hefur ekkert eftirlit með almenningshlutafélögum - það fylgist bara með fjármálafyrirtækjunum s.s. bönkum og verðbréfafyrirtækjum.

Fjölmiðlar eru múlbundnir og flestir í eigu sömu mannanna og bulla hvað mest.

Og lífeyrissjóðum virðist alveg sama hversu mikið þeir tapa.

Þeir eru bestu og þægilegustu hluthafar í heimi.

Spyrja aldrei og kvarta aldrei.

Hvenær skyldu menn vakna og byrja að spyrja spurninga og krefjast svara ?

Eru engin takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að bulla á íslenska fjármálamarkaðnum ?

Er endalaust hægt að mjólka íslenska fjárfesta/lífeyrissjóði - ár eftir ár eftir ár eftir ár ?

P.S. Sterling flugfélagið sem hluthafar almenningshlutafélagsins FL Group greiddu Pálma Haraldssyni 15.000 milljónir fyrir þarf að segja upp 20% af starfsmönnum sínum vegna erfiðleika í rekstri skv. frétt RÚV.

Ég hvet alla til að lesa einnig kaflann Baugur og skytturnar 3 sem fjallar um 15.000 milljóna peningasvindl FL Group manna á hluthöfum félagsins.


Mér þætti vænt um að heyra þitt álit eftir lesturinn og hvet þig til að skrifa í gestabókina.